Áfanginn er inngangur í afbrotafræði. Farið er í upphaf fræðigreinarinnar og þróun refsistefnunnar á Vesturlöndum. Helstu kenningar í afbrotafræðinni verða kynntar. Helstu afbrotaflokkar verða skoðaðir og rýnt verður í refsingar og fangelsismál í heiminum. Við skoðum síðan íslenskan veruleika, viðurlögin við afbrotum og refsistefnuna hér á landi. Hvers vegna brjóta menn af sér og hvað veldur því að sumir komast á beinu brautina en aðrir ekki? Við skoðum heimildamyndir og kvikmyndir sem tengjast efninu.

Í áfanganum er stjórnmálafræðin kynnt sem fræðigrein. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist skilning á helstu hugtökum sem notuð eru í fræðigreininni og læri að greina helstu hugmyndastrauma stjórnmálanna. Helstu stjórnmálastefnur verða kynntar og greindar út frá „vinstri-hægri“ kvarðanum og lagt mat á þær út frá afstöðu þeirra til breytinga og gilda. Stefnt er að því að nemendur geti lagt gagnrýnið mat á átök í stjórnmálum og að þeir geti rökstutt slíkt mat. Loks verður fjallað sérstaklega um íslensk stjórnmál og stjórnmálaflokka.

Áfanginn er undirbúningur að námi í félagsvísindum. Áfanginn samþættir sálfræði, félagsfræði, mannfræði, heimspeki, stjórnmálafræði og uppeldis- og menntunarfræði og er undanfari annarra áfanga í félagsvísindum. Aðferðafræði greinanna er kynnt og grunnhugtökum í þessum greinum. Áhersla er á að nemendur vinni með öðrum og fjalli um efnið út frá eigin forsendum og byggi á fyrri þekkingu og reynslu. Lögð er áhersla á að nemendur temji sér vinnubrögð sem notuð eru í félagsvísindum. Kennsluaðferðir sem notaðar eru í áfanganum eru til dæmis umræður og verkefnavinna þar sem ýmist er um að ræða einstaklings- og hópverkefni. Reynt er að tengja námsefni áfangans sem best við raunverulegar aðstæður. Nemendur afla upplýsinga eftir fjölbreyttum leiðum og fá þjálfun í að meta eigið vinnuframlag og annarra.

Grunnáfangi í sálfræði og kynning á sálfræðinni sem fræðigrein, eðli hennar sögu og þróun. Helstu sálfræðistefnur eru kynntar og grunnhugtök. Þá er fjallað um starfssvið sálfræðinga og helstu undirgreinar. Nemendur kynnast rannsóknaraðferðum sálfræðinnar bæði bóklega og verklega. Fjallað er sérstaklega um námssálarfræði bæði á fræðilegan og hagnýtan hátt og nemendur læra um mismunandi tegundir náms og minnisaðferðir. Fjallað er um samspil hugsunar, hegðunar og tilfinninga, sjálfsmynd, mannleg samskipti, þróun náinna sambanda og almennt um mannlegt eðli. 

Í áfanganum er fjallað um kvíða og  streitu, einkenni og áhrif á heilsu. Nemendur meta eigin streitu og skoða leiðir til að draga úr neikvæðum áhrifum hennar. Hugtakið geðheilbrigði er skoðað svo og forvarnir í geðheilbrigðismálum. Nemendur fræðast um algengustu flokka geðrænna vandamála, orsakir þeirra tíðni, einkenni og meðferð. Nemendur öðlast innsæi og skilning á aðstæðum og aðbúnaði geðfatlaðra. Viðhorf nemenda rædd með það fyrir augum að ýta undir virðingu, skilning og umburðarlyndi í garð geðfatlaðra. Nemendur kynna sér sögu ýmissa frægra einstaklinga sem eru þekktir fyrir að hafa náð langt þrátt fyrir að vera ekki eins og eðlilegast þykir.


Kynjafræði er fræðigrein sem fjallar um margbreytileikann. Hún stuðlar að lýðræði og leitast við að ýta undir og auka þátttöku allra samfélagsþegna óháð kynhneigð, þjóðerni, aldri og fötlun (auk annarra þátta). Flestir þættir í okkar daglega lífi hafa kynjafræðilegar hliðar hvort sem um er að ræða kynhlutverk, klám, jafnrétti, kynbundið ofbeldi, réttur til náms og réttur okkar til heilsu. 

Markmið áfangans er að veita nemendum innsýn í kynjafræðina og skoða veröldina eins og við þekkjum hana með augum kynjafræðinnar. ,,Að skoða veröldina frá sjónarmiði kyns og margbreytileika er eins og að hafa heiminn í lit eftir að hafa bara séð hann í sauðalitunum."  (http://www.hi.is/stjornmalafraedideild/kynjafraedi)



Í áfanganum er fjallað um frumkvöðla félagsfræðinnar og kynntar helstu kenningar og rannsóknaraðferðir greinarinnar. Tengsl einstaklinga og samfélags eru skoðuð og greind í ljósi ólíkra kenninga. Í áfanganum er farið yfir vítt svið félagsfræðinnar og nemendur fá þjálfun í að beita félagsfræðilegu innsæi við túlkun á samfélaginu, bæði almennt og á tiltekin viðfangsefni. Bornar verða saman eigindlegar og megindlegar rannsóknir og tengsl þeirra við kenningar. Nemendur fá þjálfun í að beita rannsóknaraðferðum og fylgja vísindalegu rannsóknarferli þar sem áhersla verður lögð á aðferðarfræðileg og siðferðisleg vandamál tengd rannsóknum í félagsvísindum. Meginmarkmið áfangans er að auka áhuga, þekkingu og skilning nemenda á kenningum og rannsóknaraðferðum til þess að þeir verði færir um að meta, taka afstöðu til og fjalla á gagnrýninn hátt um rannsóknir félagsvísindamanna og beita þeim í nokkrum mæli.

Áfanginn er undirbúningur að námi í félagsvísindum. Áfanginn samþættir sálfræði, félagsfræði, mannfræði, heimspeki, stjórnmálafræði og uppeldis- og menntunarfræði og er undanfari annarra áfanga í félagsvísindum. Aðferðafræði greinanna er kynnt og grunnhugtökum í þessum greinum. Áhersla er á að nemendur vinni með öðrum og fjalli um efnið út frá eigin forsendum og byggi á fyrri þekkingu og reynslu. Lögð er áhersla á að nemendur temji sér vinnubrögð sem notuð eru í félagsvísindum. Kennsluaðferðir sem notaðar eru í áfanganum eru til dæmis umræður og verkefnavinna þar sem ýmist er um að ræða einstaklings- og hópverkefni. Reynt er að tengja námsefni áfangans sem best við raunverulegar aðstæður. Nemendur afla upplýsinga eftir fjölbreyttum leiðum og fá þjálfun í að meta eigið vinnuframlag og annarra.